fbpx

 

Upphaf flugs um Vestmannaeyja-flugvöll 

Forsaga

Í desember 1943 komu til landsins þrír ungir flugmenn, sem höfðu lokið flugnámi við flugskóla Konna Jóhannessonar í Winnipeg, Manitóba-fylki í Kanada. Þetta voru þeir Alfreð Elíasson, Kristinn P. Olsen og Sigurður Ólafsson. Að námi loknu fengu þeir vel launaða vinnu hjá Konunglega kanadíska flughernum ( RCAF), við þjálfun nýliða í loftsiglingafræði og sprengjuvarpi. Samningur þeirra við flugherinn átti að vera til stríðsloka, en vegna þess að þeirra var þörf á Íslandi, fengu þeir sig lausa fyrr.
Í Winnipeg keyptu þeir einshreyfils Stinson Reliant flugvél, sem gat flutt fjóra farþega. Þeir flugu henni til New York og sendu hana þaðan með skipi til Íslands í janúar 1944. Hugðust þeir bjóða Flugfélagi Íslands vélina á kostnaðarverði gegn því að fá vinnu hjá félaginu, en það gekk ekki etir. Þeir fóru því að huga að stofnun flugfélags, sem síðar varð Loftleiðir hf.

Frumathugun á flugvallargerð

Það var um miðjan Janúar 1944, sem Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður Vestmannaeyja bað þá félaga Alfreð, Kristin og Sigurð að fara til Vestmannaeyja til að athuga með flugvallargerð þar. Kristinn segir að þeir hafi farið með „línuveiðara“ til Eyja. Þar fengu þeir leiðsöguman og bílstjóra, Skarphéðinn Vilmundarson síðar flugvallarstjóra, til að fara með sig um eyna og út í Stórhöfða, til að kanna veðurskýrslur síðustu ára. Sú athugun leiddi í ljós að austanátt var ríkjandi vindátt. Þeim fannst ákjósanlegast að leggja flugbraut austan Ofanleitis, sem væri 450X40 metrar og yrði hún að liggja sem næst frá austri til vesturs. Slík braut yrði aðeins fyrir minni flugvélar. Þeir sendu tillögu sína til bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum og eru dálítið hreyknir af því að hafa bent á rétta staðinn. Það skeikaði ekki nema tíu gráðum frá þeirra tillögu og niðurstöðu verkfræðinga sem endanlega ákváðu hvernig flugbrautin skyldi liggja. Það var svo skömmu eftir að þeir komu aftur til Reykjavíkur, að Agnar Kofoed-Hansen flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar og Jóhann Þ. Jósefsson leituðu eftir því við þá hvort þeir vildu gera skriflegan samning við bæjarstjórnina í Eyjum, um að þeir tækju að sér farþega flug til Vestmannaeyja, ef flugvöllur yrði byggður þar. Þeir féllust á það og Kristinn fór því aftur til Eyja með undirskrift Alfreðs og Sigurðar, en þeir síðarnefndu vildu losna við að fara aðra ferð vegna sjóveiki. Það var að frumkvði þessara manna að flugvallargerð var hafin í Vestmannaeyjum.

Ákveðið að byggja flugvöll

Á Alþingi 1944-45 var samþykkt tillaga. Jóhans Þ. Jósefssonar að veitt yrði á fjárlögum, byrjunar-framlag að upphæð kr. 300.000 til flugvallargerðar í Vestmannaeyjum. Erling Ellingsen flugmálastjóri fór til Eyja til þess að athuga alla staðhætti. Verkfræðingur á vegum Höjgaard &Schultz, Björn Fanö og flugmálastjóri, ákváðu legu brautarinnar og að hún yrði 800 metra löng og 60 metra breið. Sunnudaginn 11.nóvember 1945 kom varðskipið Ægir til Eyja með sótrvirkar vélar, svo sem ýtur, gaddvaltara, krana, traktora, loftpressu og fl.. Flugmálastjórn tókst með ötulli aðstoð Jóhanns Þ Jósefssonar og fyrir velvild nefndar setuliðsviðskipta, að fá vélarnar keyptar frá setuliði Bandaríkjanna. Hófst þar með bygging flugvallarins af fullum krafti.

Flugvöllurinn afhentur

Miðvikudaginn 13. Nóvember 1946 fór fram formleg afhending flugvallarins í Vestmannaeyjum og hafði bæjarstórnin í því tilefni boð inni í Samkomuhúsinu. Til hófsins komu úr hhöfuðstaðnum: Jóhann Þ.Jósefsson alþingismaður, Brynjólfur Bjarnason menntamálaráðherra, Erling Ellingsen flugmálastjóri, Sigurður Jónsson ( siggi flug) , Guðmundur Hlíðdal póst- og símamálastjóri, Axel Sveinsson vitamálastjóri, Theresía Guðmundsson veðurstofustjóri, verkfræðingarnir Langvad og Östergaard svo og verkstjórar firmans Höjgaard & Schultz, fréttamenn útvarps og blaða og nokkrir fleiri. Bæjarstjóri, Ólafur Á. Kristjánsson setti samkvæmið með ræðu og lýsti ánægju Vestmannaeyinga yfir því stóra skrefi, sem með föstum flugsamgöngum, væri stigið út úr þeirri einangrun, sem verið hafði þyrnir í augum þeirra sem í Eyjum bjuggu. Flugmálastjóri afhenti flugvöllinn með ræðu og Árni Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar þakkaði fyrir hönd bæjarstjornar. Fjölmargar aðrar ræður voru fluttar. Úr ræðum þessum þóttu tvö atriði athyglisverð. Hið fyrra var, að Halldór Guðjónsson skólastjóri benti á, þá nauðsyn að miða flugferðir frá Eyjum ekki sérstaklega við Reykjavík, heldur alveg eins og við flugvöllinn á Hellu. En hæfilegur akstur í bifreið væri Vestmannaeyingum ekki móti skapi. Með báða þessa lendingarstaði í huga myndi flugferðirnar notast best. Hitt atriðið engu ómerkara var sá vitnisburður, sem verkfræðingurinn Östergaard gaf verkamönnum þeim sem við flugvöllinn höfðu unnið. Sagði hann þá hafa verið þá bestu sem hann hefði haft undir sinni stjórn hér á landi og gagnsætt því sem víðast hefði verið, hefði hann getað verið áhyggjulaus um ástundun og afköst verkamanna sinna. Taldi hann ástæðuna þá að vegna einangrunar hefði ómenning sú er vinnusvik síðustu ára hefðu ræktað, ekki náð að festa rætur í Eyjum, og hann vonaði að bættar samgöngur yrðu ekki til þess að spilla íbúunum að þessu leiti.

Lendingaróhöpp

Áður en flugvöllurinn var fullgerður og enn enginn flugumferðarstjórn, áttu sér stað tvö lendingaróhöpp. Það fyrra var þegar TF-RVC flugvél Loftleiða lenti í myrkri á ljóslausri flugbrautinni og rakst á jeppabifreið umboðsmannsins. Það seinna var þegar TF-TUK flugvél Kristjáns lenti undan vindi og rann út af brautarendanum.

Lendingaróhapp TF-RVC

Morguninn 25. September 1946 var hvöss austanátt og þungbúið í Eyjum og því ekki talið fært að halda uppi flugferðum. Eftir hádegi lygndi heldur og fór flugvél Loftleiða þá eina ferð til Hellu með tvo farþega. Eftir að flugvélin kom til baka voru farin nokkur stutt hringflug yfir Eyjar. Síðdegis fór Dagfinnur til Hellu með tvo farþega en kom með tóma vél til baka. Var þá rétt áður búið að panta far fyrir tvo frá Hellu. Var því ákveðið að fara eina ferð enn. Var látið bensín á vélina og fór Halldór af stað rétt fyrir klukkan átta. Vega þess að byrjað var að rökkva, var ákveðið að bifreið skyldi staðsett á miðjum austurenda flugvallarins með ljósum svo hægara væri fyrir flugmanninn að átta sig á flugvellinum. Umboðsmaður Loftleiða í Eyjum, Magnús Thorberg póstmeistari lagði síðan bifreiðinni V10 (sem var blæju jeppi) á brautarendann og lét bifreiðina snúa í vestur með lágum ljósum. Í bifreiðinni sátu auk Magnúsar, Dagfinnur flugmaður og Richard Pálsson skrifstofumaður. Um það leiti sem vænta mátti vélarinnar, fór Magnús út úr bifreiðinni til að hlusta eftir vélinni. Sá hann þá vélina koma yfir Eiðið, milli Klifs og Heimakletts. Í sömu andrá sá Magnús hest koma eftir veginum og stefndi hann til flugvallarins. Kallaði hann þá til félaga sinna og bað þá að koma og reka hestinn burt, svo hann færi ekki inn á flugvöllinn. Dagfinnur kom þá út úr bifreiðinni og Richard á eftir. Var flugvélin þá yfir vesturenda flugvallarins. Skömmu síðar lenti flugvélin og vegna þess að þá var logn, rann vélin því lengra og stöðvaðist á bifreiðinni, Fór Skrúfublaðið í gegnum blæjuhús bifreiðarinnar. Brotnaði hægra hjól vélarinnar og vængstífa. Engann sakaði og var það kannski hestinum að þakka. Farþegar voru Sveinn Áki Þórðarson Nýjabæ Vestmannaeyjum 24 ára og Benedikt Sigujónsson Árbæ Hornafirði 24 ára. Flugvélinni var komið fyrir inn í flugskýli, síðar flutt með skipi til Reykjavíkur og henni ekki flogið framar.

Lendingaróhapp TF-TUK

Á hádegi 13. Oktober 1946 var hægviðri í Eyjum, vest norðvestan 1 vindstig. Þá undirbjó Kristján flugvél sína í Reykjavík til að fara austur í Öræfi og sækja þrjá farþega, sem vildu komast til Reykjavíkur. Engir farþegar voru í flugvélinni austur, en hinsvegar lítilsháttar af vörum til Öræfinga. Eftir 1 tíma og 30 mínútur var lent á flugvellinum við Fagurhólsmýri. Farþegarnir voru á vellinum og eftir stutt stopp var haldið af stað og flogið sömu leið til baka, suður fyrir Mýrdalsjökul. Þegar flugvélin var stödd yfir Austur- Eyjafjöllum, sá flugmaðurinn að bensínið var farið að minnka og myndi ekki nægja til Reykjavíkur. Ekkert bensín var að fá á Hellu og því ákvað hann að fara til Vestmannaeyja, en þar var fáanlegt flugvéla bensín. Kom flugvélin yfir Eiðið, milli Klifs og Heimakletts. Flaug suður fyrir bæinn, Síðan til vestur og kom inn til lendingar í austur. Vindur var þá norðvestan 3 vindstig. Flugmanninum tókst ekki að stöðva flugvélina á brautinni og rann hún út af austurendanum. Brotnuðu bæði aðal hjólin undan vélinni og skrúfan eyðilagðist. Engan sakaði. Farþegar voru Guðný Gísladóttir 28 ára, Þórður Jónsson 14 ára og Júlíus Viðar Axxelsson 11 ára. Þau komu öll frá Hnappavöllum í Öræfum. Flugvélin var flutt með skipi til Reykjavíkur þar sem gert var við hana.

Upphaf flugs

Um mitt sumar 1946 var farið að keyra rauðamöl úr Helgafelli í yfirborð flugvallarins. Eyjamenn voru farnir að fylgjast af áhuga með flugvallargerðinni, því nú fór að styttast í að völlurinn yrði fær litlum flugvélum. Miðvikudaginn 14.ágúst 1946 lenti fyrst flugvél á flugvellinum, sem þá var 250 metrar. Þ að var eins hreyfils tveggja sæta Piper Cub TF- KAK. Flugmenn voru Halldór Bech og Hjalti Tómasson, en þeir voru flugmenn hjá Loftleiðum og Hjalti var einn af stofnendum þess félags. Í flugdagbók Hjalta þann 14. Ágúst 1946 er skrifað „Lent í fyrsta sinn á flugvellinum“ og við flugið til Reykjavíkur „tekinn póstur í fyrsta sinn á landvél“ . Kristinn Olsen og Hjalti könnuðu flugvöllinn fjórum dögum áður, þegar þeir flugu yfir Vestmannaeyjar á tveggja hreyfla Anson -Vél, en þá voru þeir í farþegaflugi frá Fagurhólsmýri til Reykjavíkur.

Laugardaginn 24. Ágúst lentu á flugvellinum flugmennirnir Ásgeir Pétursson og Kristján Steindórsson. Þeir voru á flugvélinni TF-KAK og fóru til Eyja til að kanna flugvöllinn. Kristján var þá búinn að kaupa fjögurra sæta flugvél, sem hann ráðgerði að nota til útsýnis og leiguflugs. Vestmannaeyjar voru því áhugaverðar fyrir flugmenn, sem voru að hefja flugrekstur.

Þriðjudaginn 27. Ágúst lenti Jón N. Pálsson einkaflugmaður flugvél sinni TF-KAK á flugvellinum. Með honum var Sigurður Ágústsson frá Melstað í Eyjum. En Sigurður var að fara heim til sín í sumarfrí. Sigurður var fyrsti farþeginn sem kom flugleiðis til Vestmannaeyja á flugvöllinn. Jón og Sigurður lærðu flugvirkjun í sama skóla í Buffalo Bandaríkjunum. Emilía Guðlaugsdóttir frá Kaugalandi í Eyjum fékk far með Jóni til Reykjavíkur og var hún fyrsti farþeginn frá Vestmannaeyjaflugvelli. Emilíja segist hafa verið flugveik á leiðinni. Flugið tók 1 tíma og 5 mínútur.

Fimmtudaginn 29. Ágúst var fyrsta sjúkraflug frá Eyjum. Flugmaður var Ásgeir Pétursson á Piper Cub J-3 TF- KAG. Flugið til Reykjavíkur tók 1 tíma og 10 mínútur. Þriðjudaginn 10. Septeber var flugbrautin orðin 400 metra löng. Loftleiðir hófu þá farþega flug með eins hreyfils flugvél TF-RVC af gerðinni Vultee Stinson, sem tók tvo farþega. Flugmaður var Halldór Bech. Farnar voru tvær ferðir til lands. Fyrri ferðin var farin til Hellu, þá voru farþegar Þorvaldur Guðjónsson og frú. Síðari ferðin var farin til Reykjavíkur í þeirri ferð voru farþegar Sigurður Gunnsteinsson síðar starfsmaður Loftleiða og Pétur Jóhannsson. Sama dag lenti Kristján Steindórsson Percval Proctor flugvél sinni TF- TUK, sem var eins hreyfils fjögurra sæta. Hófst þá flug með flugvél, sem gat flutt þrjá farþega.

Miðvikudaginn 11. September fór Vultee-vél Loftleiða eina ferð til Reykjavíkur, farþegar voru Magnús Magnússon og frú með barn. Sama dag fór Proctor -vél Kristjáns eina ferð. Þá voru austan sjö vindstig. Flugið til Eyja tók 1 tíma, en til Reykjavíkur aðeins 30 mínútur. Flugmaður var Ásgeir Pétursson.

Fimmtudaginn 12. September fóru með Vultee- Vél Loftleiða, Ólafur Á. Kristjánsson og frú, Halldór guðjónsson, Guðjón Jónsson Hlíðdal, Minna Breiðfjörð, Ranný Árnadóttir, Jón Eiríksson og frú með barn og Sighvatur Bjarnason og frú með barn. Ásgeir Péturson fór þá eina ferð á Proctor-vél Kristjáns og var 40 mínútur til Reykjavíkur.

Laugardaginn 21. September hófu Loftleiðir reglubundar áætlunarferðir til Hellu með Vultee-vélinni og þaðan með Anson-vél til Reykjavíkur. Flugmennirnir Halldór Bech og Dagfinnur Stefánsson voru þá staðsettir í Eyjum og skiptust á að fljúga flugvélinni.

Laugardaginn 12.oktober var flugbrautin orðin um 700 metra löng. Loftleiðir hófu þá daglegar flugferðir milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, með tveggja hreyfla átta farþega flugvél TF-RVF af Avro Anson gerð. Í tilefni þess var bæjarstjórn og fréttamönnum útvarps og blaða boðið í hringflug yfir Eyjar. Flugvélin þótti rúmgóð og sætin þægileg. Með Anson- vélinni fóru 7 farþegar til Reykjavíkur. Flugmenn voru Kristinn Olsen og Hjalti Tómasson. Síðdegis sama dag lenti TF-ISH 22 sæta C-47 Douglas Dakota flugvél Flugfélags Íslands. Var það könnunarflug með nokkra starfsmenn félagsins. Flugmenn voru Örn Ó Johnson og Kristján Kristinsson og Hörður Sigurjónsson. Sama dag fór Persival Prictor TF-SHA, flugvél Flugskóla Akureyrar tvær ferðir og flutti 11 farþega. Flugmaður var Njáll Guðmundsson.

Þriðjudaginn 31.desember fór Flugfélag Íslands eina ferð á Douglas-vélinni. Flugmenn voru Jóhannes R. Snorrason og Smári Karlsson. Loftleiðir fóru þá tvær ferðir. Önnur ferðin var á Anson-vélinni. Flugmenn voru Kristinn Olsen og Alfreð Elíasson. Hin ferðin var á Grumman Goose TF-RVJ. Flugmenn voru Sigurður Ólafsson og Jóhannes Markússon